Fréttabréf
Fréttabréf Golfklúbbs Öndverðarness maí 2024.
Sælir ágætu félagar.
Það styttist óðum í að skemmtilegt 50 ára afmælisár klúbbsins hefjist á golfvellinum okkar. Starfsmenn vallarins eru á fullu þessa dagana við að gera völlinn klárann, róbótarnir eru komnir í hús og byrjað að gera þá klára í vinnu sumarsins og vonumst við til að þeir verði komnir í fulla virkni í byrjun júní.
Til þess að hlaða róbótana og gps-sendana munum við notast við sólarsellur-lausnir sem nú þegar hafa verið settar upp víðsvegar við völlinn. Staðsetning þeirra á eflaust eftir að taka breytingum þegar fram líða stundir og verður reynt að hafa þær eins lítið sýnilegar og mögulegt er en til að byrja með er lögð áhersla á að koma öllu í virkni.
Vinnudagurinn verður laugardaginn 18. maí með sama sniði og áður og vonum við eftir að sem flestir sjái sér fært að mæta því margar hendur vinna létt verk.
Afmælisárið:
Sögu- og ritnefnd.
Stjórn GÖ ákvað að halda veglega upp á 50 ára afmæli klúbbsins. Í haust var skipuð Sögu/ritnefnd sem unnið hefur frábært starf við að skrá sögu klúbbsins undir styrkri stjórn Kristínar Guðmundsdóttur. Mun það verk verða birt á heimasíðu klúbbsins ásamt myndum sem verið er að safna og skanna inn. Ef þið eigið skemmtilegar myndir sem tengjast klúbbnum og starfinu væri gaman ef þið létuð okkur vita og leyfðuð okkur að nota þær.
Afmælisnefnd:
Stjórnin skipaði einnig afmælisnefnd sem mun stýra afmælisviðburðum í sumarsins. Formaður afmælisnefndar er Brynjar Stefánsson.
1. Afmælismót GÖ verður haldið laugardaginn 13. júlí. Við hvetjum ykkur til að taka daginn frá því þennan dag verður skemmtilegt í Öndverðarnesi. Mótið verður 9 holu keppni og velja má að spila fyrri eða seinni holur vallarins. Partý, stuð og skemmtun um kvöldið í skálanum.
2. Fjölskylduhátíð um Verslunarmannahelgina. Afmælisnefndin býður til afmælisveislu þessa helgi með glæsilegri dagskrá sem kynnt verður nánar þegar nær dregur.
3. Lokahóf GÖ verður glæsilegt að vanda og jafnvel með breyttu sniði.
Völlurinn:
Þetta árið verður mikill metnaður lagður í að gera völlinn okkar glæsilegan. Það hefur vantað upp á að bekkir séu við alla teiga en við vonum að úr því verði bætt í sumar.
Ef þið, kæru félagar, viljið styrkja klúbbinn með því að gefa bekki (í samráði við afmælisnefndina) þá er sá styrkur vel þegin. Þeir bekkir verða þá merktir gefendum.
Sérstakt átak verður gert við að snyrta og fegra í kringum teiga, rétta af skilti og bekki og helluleggja þar sem þörf er á.
Enn fremur er lagt til að félagsmenn geti tekið ákveðnar brautir í fóstur. Sjá um að “þeirra” braut beri af öðrum brautum í snyrtimennsku og glæsileika.
Afmælisgolfferð:
Fyrirhuguð afmælisgolfferð til Spánar var slegin af allavega í bili en stefnt er að því að kanna áhuga á að fara slíka ferð að ári.
Starf ræsis í sumar:
Enn hefur ekki tekist að fullmanna þá stöðu. Er ekki einhver félagsmaður tilbúinn í að standa einhverjar vaktir í júní og júlí þótt ekki sé um fasta viðveru aðra hverja helgi. Ef svo er máttu endilega senda okkur póst.
Stjórn GÖ og starfsmenn óska félagsmönnum sínum gleðilegs sumar og við hlökkum til að hitta sem flesta á vellinum okkar í leik og gleði, sól og blíðu.