Golfhermir í Öndverðarnesi
Kæru golffélagar í GÖ,
Eins og kom fram á aðalfundi Golfklúbbs Öndverðarness í nóvember s.l. erum við nokkrir félagar sem höfum unnið að því að settur verði upp golfhermir á neðri hæð golfskálans. Við höfum gert samkomulag við Öndverðarnes ehf. sem er eigandi golfskálans og við stjórn GÖ. Áætlaður kostnaður við kaup á nýjustu útgáfu Trackman iO golfhermi, búnaði og uppsetningu ásamt lagfæringum á húsnæði er um 6 milljónir króna.
Til að þetta geti orðið að veruleika leitum við til ykkar félaga í GÖ, um fjármögnun á herminum með kaupum á Inneignarbréfi, sem gildir til leigu á herminum. Hvert bréf mun kosta kr. 50.000, en gildir sem 60.000 króna inneign.
Leiguverði í herminn verður stillt í hóf fyrir félaga, aðeins kr. 3.000 á klukkustund, en með því að kaupa Inneignarbréf er verðið kr. 2.500, þannig að hvert inneignarbréf gildir fyrir 20 tíma í herminum. Svo er auðvitað hægt að kaupa 1, 2, 3 eða fleiri Inneignarbréf. Til að safna áðurnefndum 6 milljónum króna þarf að selja 120 Inneignarbréf.
Inneignarbréfin gilda til vors 2028 og er miðað við að á þeim tímapunkti verði hermirinn færður GÖ að gjöf. Stefnt er að því að golfhermirinn verði tilbúinn til notkunar í apríl/maí 2025.
Við höfum gert samkomulag við Öndverðarnes ehf., eiganda golfskálans, um afnot af húsnæðinu og fengið heimild til breytinga og lagfæringa. Mjög góð aðstaða er fyrir hermi og ef reynslan verður góð væri hægt að bæta öðrum við.
Stjórn GÖ hefur samþykkt að hafa milligöngu um innheimtu og að tengill verði settur á heimasíðu klúbbsins sem vísar á bókunarsíðu fyrir herminn sem er öllum opin.
Það skal tekið fram að GÖ leggur ekki fram fé til kaupa á golfherminum, uppsetningu eða til lagfæringa á húsnæði.
Við kylfingar í GÖ erum heppin að fá afnot af þessari aðstöðu til að geta iðkað golf allt árið í Öndverðarnesi, en til þess þarf að safnast nægilegt fjármagn til kaupanna. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við þessari hugmynd og vonumst eftir þátttöku þinni.
Nú óskum við eftir svari frá þér um þátttöku í kaupum á golfhermi fyrir 14. febrúar n.k með þvi að fylla út eyðublaðið sem hér er að finna. Þar á að koma fram nafn, kennitala, sími, netfagn og fjöldi inneignarbréfa sem þú ert tilbúin/n að kaupa. Með því að fylla út eyðublaðið skuldbindur viðkomandi sig til að kaupa inneignarbréf náist að safna loforðum fyrir 6 milljónir.
Með golfkveðjum og von um góða þátttöku,
Undirbúningsnefndin
Ágúst Þór Gestsson, Þorleifur Friðrik Magnússon, Elías H. Leifsson,
Jóhann Árnason og Aðalsteinn Steinþórsson
Um golfherminn Trackman iO:
Trackman golfhermar eru af bestu gerð og gera æfingar og spil innanhúss raunverulegri og einfaldari en nokkru sinni fyrr. Hermarnir bjóða uppá ýmsa möguleika til að bæta sig í golfi eða bara að leika sér, svo sem:
Æfa og bæta golfsveifluna
Spila einhvern að þeim 350 golfvöllum sem eru í kerfinu
Setja upp mót og/eða mótaraðir
Möguleika á að bjóða uppá golfkennslu
Spila leiki sem eru vinsælir bæði hjá börnum og fullorðnum